Færsluflokkur: Lífstíll
27.2.2008 | 11:38
Sjónvarpsrýni
Um daginn náði einhver skítapest að klekkja á mér svo ég var meira og minna rúmliggjandi í þrjá daga. Óhjákvæmilegur fylgikvilli er sjónvarpsgláp og það mikið af því. Venjulega horfi ég mjög lítið á sjónvarp og er ekkert sérlega nýjungargjörn í þeim efnunum. Nasasjón af dagskrá íslensku stöðvanna réttlætti það fyllilega. Hér eru nokkrir þættir sem ég horfði á.
Bandið hans Bubba:
Bubbi sat með fýlusvip í ódýrri eftirlíkingu af Rock star settinu. Honum við hlið voru þrír dómarar sem höfðu ekki einu sinni dug í sér að leggja nöfn keppanda á minnið. Þeirra hlutverk var að dæma frammistöðu söngvaranna en stór hluti kvöldsins fór í einkahúmor og fliss.
Einhver stílistinn hjá Stöð 2 var búinn að troða átta krakkagreyjum sem Bubbi fann í félagsmiðstöðinni á Stokkseyri í leður og smyrja þau misvel með orangekremi. Bubbi setti út á þetta við eitthvað þeirra og benti á að fólk ætti ekki að láta stílista plata sig út í eitthvað rugl. Góður punktur en svolítið hrokafullur frá Bubba sem sat þarna í eldrauðri múnderingu sem minnti helst á kokkabúning. Einhvernvegin finnst mér líklegt að sami stílistinn hafi borið ábyrgð á hans fataklúðri.
Eitt af öðru komu þau á sviðið með nýju rokkaraklippinguna og sungu eitthvað væl eftir Sálina hans Jóns míns. Ef þau voru heppin heyrðist aðeins í þeim fyrir sjálfu bandinu. Það má hinsvegar deila um heppnina sem því fylgdi því flestir voru rammfalskir og nefmæltir og því best geymdir á Stokkseyri.
Það er ekkert gott við Bandið hans Bubba. Allt við þáttinn er cheap, hljóðið sökkaði, dómararnir voru ekki að gera sig og bandmeðlimirnir virtust gera sig seka um að hlæja að söngvurunum þegar þeir fóru út af laginu. Ekki beint þægilegt áhorfs.
Innlit útlit:
Ég vil byrja á að benda myndatökumanni þáttarins á að fá sér macro linsu og flickr account og fá útrás fyrir nærmyndablætinu þar. Það fer nefnilega einkar illa að taka eintómar nærmyndir af fúgum, glerflötum og efnisbútum þegar verið er að sýna stórar glæsiíbúðir. Hér er dæmi um hvernig venjuleg manneskja gæti myndað stóla og svo hvernig Innlit Útlit myndi sýna þá:
Annað blæti er mjög áberandi í þáttunum en það veggfóðursblætið. Þáttastjórnendur virðast veggfóðra allt sem þeir snerta og ferðast meira að segja um heiminn til að skoða hið fyrirsjáanlega fóður sem lítur einhvernvegin alltaf eins út. Ég bíð spennt eftir að Nadía, sem virðist geyma lím í rassavasanum og rúllu í veskinu, veggfóðri Arnar Gauta. Þátturinn gæti ekki annað en skánað við að hann væri geymdur límstífur út í horni.
Svo skil ég ekki er hvers vegna Skjár einn er að splæsa í litaútsendingu fyrir Innlit Útlit. Það er hvort eð er allt sem þau skoða svart eða hvítt.
Bachelor:
Ég horfði á einhvern lokaþátt þar sem súkkulaðisætur læknir valdi milli tveggja kvenna sem elskuðu hann obbslega mikið. Vandinn var að hann elskaði þær báðar líka obbslega mikið. Til að aðstoða sig við valið fór hann með konurnar í sitt hvoru lagi í foreldrahús þar sem stórfjölskyldan lagði sinn dóm á dömurnar og ígrundaði hvor væri hæfari til undaneldis, uppeldis og húsverka. Afinn á heimilinu spekúleraði í hvor kæmi barnabarninu meira til í rúminu en spurði þess á milli hvort að þær tryðu nú ekki örugglega á hinn eingetna Jesús. Annað hentaði ekki þessari íhaldssömu fjölskyldu sem samt lagði blessun sína yfir fjöldeit piparsveinsins.
"Viltu verða kærastan mín í fjóra mánuði?"
Konurnar sem ég efa ekki að séu venjulegar, vel gefnar konur virtust glepjast af gæjanum, sólinni og aðstæðunum og langaði alveg voðalega mikið að giftast graðnaglanum sem var að sofa hjá þeim báðum. Ákvörðun var tekin, hringur keyptur og tárin runnu þegar Andy bað Tessu að verða konan sín að eilífu. Hamingjan blasti við hinu unga pari og ég varð alveg miður mín þegar ég gúglaði áðan að fjórum mánuðum síðar dömpaði fyrrum piparsveinninn Tessu sinni fyrir ungfrú Íran. Hún er samt rosalega heit í g streng þannig að ég hugsa nú að afi gamli geti fyrirgefið henni Íslamstrúna.
"Hæ afi"
Canadas Next Top Model:
Ok. Ég sá bara endann á þættinum en ég hef séð þessa þætti og veit hvernig þeir virka. Allavega sátu þarna einhverjir dómarar og létu eins og þeir væru að ákvarða hvenær næsta heimsstyrjöld ætti að hefjast, slíkt var dramað. Einhver manneskja sem ég er ekki alveg viss um hvort að var kvenkyns eða karlkyns ( það er móðins í tískuheiminum )grét söltum tárum ofan í myndir af vannærðum stúlkum.
Ljóti andarunginn Andrea átti eftir að þroskast þarna.
Loksins komust þau að niðurstöðu og einhver aumingja stúlka var yfir sig ánægð að fá staðfestingu á að vera ekki lengur the ugly duckling. Svo voru sýndar myndir af henni einu sinni og sýnt hvað hún hafði þroskast obbslega á þessari ferð sinni. Ég held reyndar að þroskinn hafi aðallega mælst í því að hún hafði horast, fengið nýja klippingu og dubbað eitthvað upp á hana. Hún virtist nú samt einhvernvegin bara jafn týnd í þessu öllu og krakkarnir í Bandinu hans Bubba
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 12:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)