-o- - Hausmynd

-o-

Icelandair og íslenskt veðurfar

Hundurinn á heimilinu tekur aðvöruninni mjög alvarlega. Hún liggur undir borði og það þurfti ekkert minna en reykt svínseyra til að ná henni undan því. Þegar hún hafði lokið við eitt slíkt hljóp hún út í hurð og urraði á illveðrið. Þaðan lá leiðin rakleiðis undir borð aftur og nú vælir hún í mér að koma til sín í hið örugga skjól. Ég er nú ekki alveg svo taugaveikluð en við deilum geðvonskunni út í veðrið. Þetta er orðið óþolandi.

Tala nú ekki um þegar uppáhalds fólkið manns er meira og minna allt statt í flugstöðinni að bíða eftir flugi eða er á þorrablótum út um víðan völl.

Foreldrar mínir hafa verið úti á flugvelli síðan klukkan þrjú í dag. Það var fyrir rétt um klukkutíma sem þeim var sagt að fluginu þeirra væri aflýst. Þau voru heppin og náðu að bóka eitt af síðustu hótelherbergjunum í Keflavík. Það er þó einn galli á gjöf Njarðar og fyrir einhverjar fáránlegar sakir verða þau að sækja töskurnar sínar og hafa þær með sér. Nú standa þau við færibandið og viti menn, töskurnar eru gufaðar upp og enginn veit neitt. Í öllum þessum gáfulegheitum skellti eitthvað starfsmannaséníið hurð upp á föður minn svo hann hlaut af stærðar gat á gagnaugað. Nú bíður semsagt karl faðir minn, sem venjulegast er ósköp virðulegur heldri maður, alblóðugur við færiband og bíður heldur pirraður og þreyttur eftir töskum sem hann skyndilega hefur þörf fyrir.

Þetta minnir mig á þegar ég og kærastinn vorum strönduð í Ameríku fyrir jól. Vonskuveður geisaði á Íslandi og fluginu okkar var frestað. Vingjarnlegur en afar ringlaður amerískur starfsmaður tjáði okkur að flugið færi ekki fyrr en snemma morguninn eftir svo við kusum að flýja barnsgrát og pirring og tékka okkur aftur inn á hótel til þess að ná a.m.k þriggja tíma dúr fyrir flugið.

Þegar við höfðum lagt okkur í um tvo tíma, eða gert tilraun til þess, fengum við símtal frá Íslandi með þeim fréttum af textavarpinu að flugið færi ekki fyrr en um hádegisbil og okkur væri því óhætt að sofa lengur. Til þess að vera alveg viss hringdum við í bandaríska hjálparlínu Icelandair í Bandaríkjunum en úps hún er bara opin á skrifstofutímum. Við ákváðum að taka sénsinn og bíða á hótelinu þar til flugið átti að fara samkvæmt textavarpinu. Ég svaf ekki mikið fyrir stressi og í taugaveikluðum huganum taldi ég krónurnar sem nýr farmiði myndi kosta okkur skyldum við missa af okkar flugi.

Það var á hárréttum tíma sem við röltum að innskráningarborðinu daginn eftir, heldur andfúl, úfin og úrill. Það vakti nokkra undrun að enginn beið eftir afgreiðslu og stúlkan var ekki lengi að segja okkur að þau vissu einfaldlega ekki neitt um flugið. Þegar að hún sá vonleysisglampann í augum okkar aumkaði hún sér yfir okkur og talaði við yfirmenn. Þeir sögðu okkur að flugið okkar og næsta flug yrðu örugglega sameinuð svo við þyrftum ekki að mæta fyrr en eftir 6 tíma.

Það var eins og sveppagróðurinn og grænmyglan á okkur versnaði um allan helming við þessar fréttir. Við vorum búin að tékka okkur út af hóteli fyrir ekki neitt. Þá var ekkert annað að gera en að fara í leigubíl í næstu verslunarmiðstöð og láta vita af okkur heim.

Fólkið okkar heima var heldur hissa á þessum fréttum því Icelandair á Íslandi vildi meina að vélin okkar færi eftir klukkutíma.Enn fór ég að telja tugþúsundirnar í huganum sem þetta ævintýri ætti eftir að kosta. Í næsta símtali að heiman var okkur sagt orðrétt hvaða skilaboð Icelandair starfsmaður í Reykjavík hafði handa okkur " Eru þau ekki nálægt flugvellinum - þau verða að fylgjast bara með vélinni út um glugga"

Eins og flestir geta ímyndað sér er erfitt að fylgjast með flugvöllum í stórborgum út um glugga í nærliggjandi húsum. Við ákváðum því bara að gefa skít í leiðbeiningar hins hjálpsama flugfélags og treysta frekar á ameríska flugvallarstarfsmenn. Og viti menn, auðvitað höfðu þeir rétt fyrir sér og við lögðum af stað heim rúmlega sólahring síðar en til stóð.

Framundan var um sjö tíma flug þar sem að flugfreyjurnar gátu ekki einu sinni sýnt þá hæversku að leyfa fólki sem hafði vakað í einn og hálfan sólahring að sofa í friði. Þannig var ég vakin upp við gargið í einni freyjunni sem gólaði "SAGA BOUTIQUE!!" og starði með hvíttuðum tönnum og gráðugum glyrnum á mig þegar ég opnaði augun til hálfs. Nei ég hafði ekki mikinn áhuga á gervigylltu skrauti eða hrukkukremi þegar þarna var komið.

Auðvitað ræður Icelandair ekki við veðrið en að þeir hafi ekki betri viðbragðsáætlanir, virkari upplýsingasíma og upplýstara starfsfólk skil ég ekki. Þetta er nú einu sinni Ísland. 


mbl.is Varasamt að vera úti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Fröken M

Haha frábært.

Fröken M, 11.2.2008 kl. 07:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband