27.2.2008 | 12:41
Epic fail
Ég sá youtube video hjá sérlegum moggabloggaravini mínum og lét mig hafa það að hlusta á Enyu, horfa á emo myndir og lesa gelgjulegu pælingarnar sem vöktu Kela svona til umhugsunar.
Svo kom ég að ramma sem vakti athygli mína en þar var spurningin:
"Why do girls feel the need to act like sluts to impress guys?".
Þetta er auðvitað frekar spaugileg fullyrðing í myndbandi sem predikar minni dómhörku. Enda flissaði ég sekúndu síðar þegar önnur mynd ásamt spurningunni
"Why can't people show their sexuality FREELY without being judged?"
Tvískinnungur einhver?
27.2.2008 | 11:38
Sjónvarpsrýni
Um daginn náði einhver skítapest að klekkja á mér svo ég var meira og minna rúmliggjandi í þrjá daga. Óhjákvæmilegur fylgikvilli er sjónvarpsgláp og það mikið af því. Venjulega horfi ég mjög lítið á sjónvarp og er ekkert sérlega nýjungargjörn í þeim efnunum. Nasasjón af dagskrá íslensku stöðvanna réttlætti það fyllilega. Hér eru nokkrir þættir sem ég horfði á.
Bandið hans Bubba:
Bubbi sat með fýlusvip í ódýrri eftirlíkingu af Rock star settinu. Honum við hlið voru þrír dómarar sem höfðu ekki einu sinni dug í sér að leggja nöfn keppanda á minnið. Þeirra hlutverk var að dæma frammistöðu söngvaranna en stór hluti kvöldsins fór í einkahúmor og fliss.
Einhver stílistinn hjá Stöð 2 var búinn að troða átta krakkagreyjum sem Bubbi fann í félagsmiðstöðinni á Stokkseyri í leður og smyrja þau misvel með orangekremi. Bubbi setti út á þetta við eitthvað þeirra og benti á að fólk ætti ekki að láta stílista plata sig út í eitthvað rugl. Góður punktur en svolítið hrokafullur frá Bubba sem sat þarna í eldrauðri múnderingu sem minnti helst á kokkabúning. Einhvernvegin finnst mér líklegt að sami stílistinn hafi borið ábyrgð á hans fataklúðri.
Eitt af öðru komu þau á sviðið með nýju rokkaraklippinguna og sungu eitthvað væl eftir Sálina hans Jóns míns. Ef þau voru heppin heyrðist aðeins í þeim fyrir sjálfu bandinu. Það má hinsvegar deila um heppnina sem því fylgdi því flestir voru rammfalskir og nefmæltir og því best geymdir á Stokkseyri.
Það er ekkert gott við Bandið hans Bubba. Allt við þáttinn er cheap, hljóðið sökkaði, dómararnir voru ekki að gera sig og bandmeðlimirnir virtust gera sig seka um að hlæja að söngvurunum þegar þeir fóru út af laginu. Ekki beint þægilegt áhorfs.
Innlit útlit:
Ég vil byrja á að benda myndatökumanni þáttarins á að fá sér macro linsu og flickr account og fá útrás fyrir nærmyndablætinu þar. Það fer nefnilega einkar illa að taka eintómar nærmyndir af fúgum, glerflötum og efnisbútum þegar verið er að sýna stórar glæsiíbúðir. Hér er dæmi um hvernig venjuleg manneskja gæti myndað stóla og svo hvernig Innlit Útlit myndi sýna þá:
Annað blæti er mjög áberandi í þáttunum en það veggfóðursblætið. Þáttastjórnendur virðast veggfóðra allt sem þeir snerta og ferðast meira að segja um heiminn til að skoða hið fyrirsjáanlega fóður sem lítur einhvernvegin alltaf eins út. Ég bíð spennt eftir að Nadía, sem virðist geyma lím í rassavasanum og rúllu í veskinu, veggfóðri Arnar Gauta. Þátturinn gæti ekki annað en skánað við að hann væri geymdur límstífur út í horni.
Svo skil ég ekki er hvers vegna Skjár einn er að splæsa í litaútsendingu fyrir Innlit Útlit. Það er hvort eð er allt sem þau skoða svart eða hvítt.
Bachelor:
Ég horfði á einhvern lokaþátt þar sem súkkulaðisætur læknir valdi milli tveggja kvenna sem elskuðu hann obbslega mikið. Vandinn var að hann elskaði þær báðar líka obbslega mikið. Til að aðstoða sig við valið fór hann með konurnar í sitt hvoru lagi í foreldrahús þar sem stórfjölskyldan lagði sinn dóm á dömurnar og ígrundaði hvor væri hæfari til undaneldis, uppeldis og húsverka. Afinn á heimilinu spekúleraði í hvor kæmi barnabarninu meira til í rúminu en spurði þess á milli hvort að þær tryðu nú ekki örugglega á hinn eingetna Jesús. Annað hentaði ekki þessari íhaldssömu fjölskyldu sem samt lagði blessun sína yfir fjöldeit piparsveinsins.
"Viltu verða kærastan mín í fjóra mánuði?"
Konurnar sem ég efa ekki að séu venjulegar, vel gefnar konur virtust glepjast af gæjanum, sólinni og aðstæðunum og langaði alveg voðalega mikið að giftast graðnaglanum sem var að sofa hjá þeim báðum. Ákvörðun var tekin, hringur keyptur og tárin runnu þegar Andy bað Tessu að verða konan sín að eilífu. Hamingjan blasti við hinu unga pari og ég varð alveg miður mín þegar ég gúglaði áðan að fjórum mánuðum síðar dömpaði fyrrum piparsveinninn Tessu sinni fyrir ungfrú Íran. Hún er samt rosalega heit í g streng þannig að ég hugsa nú að afi gamli geti fyrirgefið henni Íslamstrúna.
"Hæ afi"
Canadas Next Top Model:
Ok. Ég sá bara endann á þættinum en ég hef séð þessa þætti og veit hvernig þeir virka. Allavega sátu þarna einhverjir dómarar og létu eins og þeir væru að ákvarða hvenær næsta heimsstyrjöld ætti að hefjast, slíkt var dramað. Einhver manneskja sem ég er ekki alveg viss um hvort að var kvenkyns eða karlkyns ( það er móðins í tískuheiminum )grét söltum tárum ofan í myndir af vannærðum stúlkum.
Ljóti andarunginn Andrea átti eftir að þroskast þarna.
Loksins komust þau að niðurstöðu og einhver aumingja stúlka var yfir sig ánægð að fá staðfestingu á að vera ekki lengur the ugly duckling. Svo voru sýndar myndir af henni einu sinni og sýnt hvað hún hafði þroskast obbslega á þessari ferð sinni. Ég held reyndar að þroskinn hafi aðallega mælst í því að hún hafði horast, fengið nýja klippingu og dubbað eitthvað upp á hana. Hún virtist nú samt einhvernvegin bara jafn týnd í þessu öllu og krakkarnir í Bandinu hans Bubba
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 12:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.2.2008 | 12:44
Af erfiðum viðskiptavinum...
Í gær fór ég í Rúmfatalagerinn. Meðan ég synti kafsund í sturtuhengjapakkningum og lá við köfnun úr ilmkertastækju gall eftirfarandi við í skrækróma starfsbarni í hátalarakerfinu:
"VIÐSKIPTAVINIR ATHUGIÐ! ÞAÐ ER STRANGLEGA BANNAÐ AÐ LEIKA SÉR Í RÚLLUSTIGANUM!!"
Ég gat ekki annað en hlegið með sjálfri mér. Nú geri ég fastlega ráð fyrir að það hafi verið börn viðskiptavina sem gerðu sér glaðan dag í rúllustiganum. En myndin sem kom upp í hugann af þreytulegum flíspeysumæðrum í brjáluðum rúllustigaeltingaleik er pínu skondin.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
14.2.2008 | 11:46
Valentínusardagurinn
Ég var ekki búin að vafra lengi um netið í morgun þegar röflandi fólk varð á vegi mínu. Í dag, 14. febrúar, taka æði margir tuðarar sér kærkomið frí frá nöldri yfir moggabloggsauglýsingum eða Spaugstofunni og nöldra þar til þeir fá sigg á fingurna yfir Valentínusardeginum.
Fólk fullyrðir að siðurinn, eins og allt annað illt í heiminum, sé kominn beinustu leið frá Ameríku. Þrátt fyrir að að bent sé á þá augljósu rangfærslu hægir það ekki einu sinni á kvabbinu. Nafn Valdísar Gunnardóttur útvarpskonu er oft nefnt í framhjáhlaupi og fullyrt að hún ásamt fégráðugum blómabændum hafi komið þessum sið á hér á landi. Fyrirsjáanlegustu tuðararnir nefna daginn jafnvel Valdísardaginn.
Ég veit ekki hvort að Valdís sé enn á prósentum fyrir að innleiða þennan sið hjá blómabúðum sem eiga það yfirleitt allar sameiginlegt að berjast í bökkum. En líklega sjá hinir neikvæðu netverjar hana fyrir sér þeysast um heiminn á blómaskreyttri einkaþotu, íklædd engu nema loðfeldi, sötrandi kampavín með Hemma Gunn. Þið vitið, eins og von er og vísa hjá öllum blómabændum landsins.
Sjálfri er mér nákvæmlega sama um Valentínusardaginn. Hann hefur ekkert gildi fyrir mér en ekki ætla ég að pirra mig á því að einhverjir kjósi að halda upp á hann. Alveg eins og mér er sama þó fólk fái sér drátt í tilefni afmælis Ólafs Ragnars Grímssonar, fari út að borða á þjóðhátíðardegi Finna, éti ónýtan mat á bóndadaginn eða kaupi sér sápu í tilefni jólanna.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.2.2008 | 11:51
Visir.is og bloggararnir sem sjá um forsíðufréttirnar
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.2.2008 | 23:10
Til biðlandi bloggvina
Þetta er ekkert persónulegt. Ég ákvað um leið og ég stofnaði þetta blogg að samþykkja enga bloggvini sama hvað mér fyndist um þeirra skrif.
Þetta félagstengsla bakklórskerfi er mér ekki að skapi. Ég les þá sem mér finnst skemmtilegir og þeir sem vilja lesa mig gera svo án þess að skyldur eða kvaðir komi við sögu. Social grooming sökkar.
Bloggar | Breytt 14.2.2008 kl. 12:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
8.2.2008 | 22:30
Icelandair og íslenskt veðurfar
Hundurinn á heimilinu tekur aðvöruninni mjög alvarlega. Hún liggur undir borði og það þurfti ekkert minna en reykt svínseyra til að ná henni undan því. Þegar hún hafði lokið við eitt slíkt hljóp hún út í hurð og urraði á illveðrið. Þaðan lá leiðin rakleiðis undir borð aftur og nú vælir hún í mér að koma til sín í hið örugga skjól. Ég er nú ekki alveg svo taugaveikluð en við deilum geðvonskunni út í veðrið. Þetta er orðið óþolandi.
Tala nú ekki um þegar uppáhalds fólkið manns er meira og minna allt statt í flugstöðinni að bíða eftir flugi eða er á þorrablótum út um víðan völl.
Foreldrar mínir hafa verið úti á flugvelli síðan klukkan þrjú í dag. Það var fyrir rétt um klukkutíma sem þeim var sagt að fluginu þeirra væri aflýst. Þau voru heppin og náðu að bóka eitt af síðustu hótelherbergjunum í Keflavík. Það er þó einn galli á gjöf Njarðar og fyrir einhverjar fáránlegar sakir verða þau að sækja töskurnar sínar og hafa þær með sér. Nú standa þau við færibandið og viti menn, töskurnar eru gufaðar upp og enginn veit neitt. Í öllum þessum gáfulegheitum skellti eitthvað starfsmannaséníið hurð upp á föður minn svo hann hlaut af stærðar gat á gagnaugað. Nú bíður semsagt karl faðir minn, sem venjulegast er ósköp virðulegur heldri maður, alblóðugur við færiband og bíður heldur pirraður og þreyttur eftir töskum sem hann skyndilega hefur þörf fyrir.
Þetta minnir mig á þegar ég og kærastinn vorum strönduð í Ameríku fyrir jól. Vonskuveður geisaði á Íslandi og fluginu okkar var frestað. Vingjarnlegur en afar ringlaður amerískur starfsmaður tjáði okkur að flugið færi ekki fyrr en snemma morguninn eftir svo við kusum að flýja barnsgrát og pirring og tékka okkur aftur inn á hótel til þess að ná a.m.k þriggja tíma dúr fyrir flugið.
Þegar við höfðum lagt okkur í um tvo tíma, eða gert tilraun til þess, fengum við símtal frá Íslandi með þeim fréttum af textavarpinu að flugið færi ekki fyrr en um hádegisbil og okkur væri því óhætt að sofa lengur. Til þess að vera alveg viss hringdum við í bandaríska hjálparlínu Icelandair í Bandaríkjunum en úps hún er bara opin á skrifstofutímum. Við ákváðum að taka sénsinn og bíða á hótelinu þar til flugið átti að fara samkvæmt textavarpinu. Ég svaf ekki mikið fyrir stressi og í taugaveikluðum huganum taldi ég krónurnar sem nýr farmiði myndi kosta okkur skyldum við missa af okkar flugi.
Það var á hárréttum tíma sem við röltum að innskráningarborðinu daginn eftir, heldur andfúl, úfin og úrill. Það vakti nokkra undrun að enginn beið eftir afgreiðslu og stúlkan var ekki lengi að segja okkur að þau vissu einfaldlega ekki neitt um flugið. Þegar að hún sá vonleysisglampann í augum okkar aumkaði hún sér yfir okkur og talaði við yfirmenn. Þeir sögðu okkur að flugið okkar og næsta flug yrðu örugglega sameinuð svo við þyrftum ekki að mæta fyrr en eftir 6 tíma.
Það var eins og sveppagróðurinn og grænmyglan á okkur versnaði um allan helming við þessar fréttir. Við vorum búin að tékka okkur út af hóteli fyrir ekki neitt. Þá var ekkert annað að gera en að fara í leigubíl í næstu verslunarmiðstöð og láta vita af okkur heim.
Fólkið okkar heima var heldur hissa á þessum fréttum því Icelandair á Íslandi vildi meina að vélin okkar færi eftir klukkutíma.Enn fór ég að telja tugþúsundirnar í huganum sem þetta ævintýri ætti eftir að kosta. Í næsta símtali að heiman var okkur sagt orðrétt hvaða skilaboð Icelandair starfsmaður í Reykjavík hafði handa okkur " Eru þau ekki nálægt flugvellinum - þau verða að fylgjast bara með vélinni út um glugga"
Eins og flestir geta ímyndað sér er erfitt að fylgjast með flugvöllum í stórborgum út um glugga í nærliggjandi húsum. Við ákváðum því bara að gefa skít í leiðbeiningar hins hjálpsama flugfélags og treysta frekar á ameríska flugvallarstarfsmenn. Og viti menn, auðvitað höfðu þeir rétt fyrir sér og við lögðum af stað heim rúmlega sólahring síðar en til stóð.
Framundan var um sjö tíma flug þar sem að flugfreyjurnar gátu ekki einu sinni sýnt þá hæversku að leyfa fólki sem hafði vakað í einn og hálfan sólahring að sofa í friði. Þannig var ég vakin upp við gargið í einni freyjunni sem gólaði "SAGA BOUTIQUE!!" og starði með hvíttuðum tönnum og gráðugum glyrnum á mig þegar ég opnaði augun til hálfs. Nei ég hafði ekki mikinn áhuga á gervigylltu skrauti eða hrukkukremi þegar þarna var komið.
Auðvitað ræður Icelandair ekki við veðrið en að þeir hafi ekki betri viðbragðsáætlanir, virkari upplýsingasíma og upplýstara starfsfólk skil ég ekki. Þetta er nú einu sinni Ísland.
Varasamt að vera úti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 11.2.2008 kl. 13:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.2.2008 | 14:27
Plebbi vikunnar er Séð og Heyrt
Ég hef aldrei heyrt neinn viðurkenna kaup á Séð og Heyrt. Þaðan af síður hef ég heyrt einhvern lýsa yfir ánægju sinni með blaðið. Einhverjir virðist samt kaupa snepilinn enda blasir hann við manni í öllum búllum sem maður rambar inn í. Áðan þurfti ég að bíða afskaplega lengi við kassann í Hagkaup. Þið vitið þar sem íslendingum finnst skemmtilegast að versla. Maður spyr sig hvort það sé út af lélegu þjónustunni og okrinu?
En þá sá ég einmitt nýjasta tölublað Séð og heyrt. Efst á blaðinu stóð "Séð og Heyrt - Gerir lífið skemmtilegra" og undir þeirri fullyrðingu var mynd af brostnu hjarta með konu og karli í. Flennistór fyrirsögnin tilkynnti mér: "BÆJARSTJÓRAHJÓNIN SKILIN"
Æ ég veit það ekki. Þetta gerði lífið mitt ekkert skemmtilegra þó ég væri stödd í skemmtilegustu búð landsins.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.2.2008 | 13:03
Óvænt heimsókn
Hvenær varð það siður á Íslandi að börn bönkuðu upp á og heimtuðu nammi í skiptum fyrir rammfalskan söng? Nei ég er ekki svo óheppin að vinna í verslun á þessum degi heldur var ég í mestu makindum í sturtu þegar barið var á dyrum. Þegar enginn kom til dyra var bankað á baðherbergisgluggann hjá mér. Þá taldi ég víst að einhver væri kominn í heimsókn til mín og hentist í ofboði úr sturtunni og klæddi mig á ljóshraða.
Þegar ég opnaði hurðina blöstu við mér tvær skælbrosandi nornir á að giska 10 ára. Nornunum fylgdi nokkru eldri drengur í svörtum ruslapoka. Eins og gefur að skilja þá var gelgjan nokkuð súr á svipinn enda varla eftirsóknarvert að ganga í hús með mun yngri stelpum íklæddur í plast.
Stelpurnar spurðu hvort þær mættu syngja fyrir mig og áður en ég gat stamað því upp úr mér að ég ætti nú ekkert nammi fóru þær að syngja Frost er úti fuglinn minn. Mitt ískalda hjarta bráðnaði við falskan sönginn og ámáttlegan svipinn á unglingnum. Þegar laginu var lokið sagðist ég ætla að athuga hvort ég lumaði á einhverju slikkeríi.
Meðan ég gramsaði í eldhússkápunum eftir jólakonfekti heyrði ég að einhver bættist í hópinn fyrir utan. Þegar ég snéri aftur með gamalt mackintos ( Sorry krakkar ) þá var þar kominn annar stálpaður strákur með kúrekahatt, hárkollu og í frakka.
Nei andskotinn hugsaði ég með mér og spurði hann vantrúuð hvort að hann væri kúreki.
Nei ég er Gummi í byrginu" sagði strákurinn glaðhlakkalega og uppskar mikið fliss frá mér. Krakkar geta verið snillingar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
5.2.2008 | 10:50
Sveinbarýni
Maður er nefndur Sveinbi. Sveinbi er einn af máttarstólpum samkvæmislífsins á sinn sérkennilega máta. Hann vinnur það þjóðþrifaverk að þvælast um hvar og hvenær sem von er á drukknum unglingsstúlkum, myndar þær í gríð og erg og birtir að lokum fullkomnuð verk sín á veraldarvefnum. Eins og ljósmyndara er von og vísa þá sleppur engin mynd frá Sveinba inn á vefinn án þess að fara í gegnum myndvinnsluforrit. Hann hefur reyndar ekki fyrir því að laga rauð augu, skerpa á fókus eða stilla birtu, nei hann merkir hverja mynd af kostgæfni með áfengis og djammauglýsingum. Ég býst við að þannig fjármagni Sveinbi salt í grautinn, smjörlíki í hárið og allar bækurnar um listræna ljósmyndun sem hann hlýtur að eiga í stöflum.
Að vísu hafa einhverjar gagnrýnisraddir verið uppi út af áfengismerktum myndum af ólögráða unglingum, en Sveinbi vísar því til föðurhúsanna og þykir svoleiðis tuð hið mesta vanþakklæti. Ég meina, skyldi þetta fólk átta sig á því hvað það er mikil vinna að sitja fyrir hverju einasta skólaballi? Veit fólk hvað ljósmyndarar eru með í næturvinnukaup? Hefur fólk ekki orðið vart við heimsmarkaðshækkun á smjörlíki? Nei Sveinbi heldur ótrauður áfram með myndavélina að vopni.
Sem ljósmyndari hefur Sveinbi einstakan stíl. Eins og áður hefur komið fram eru ungar stúlkur í dálæti hjá honum sem myndefni og mottó þessa snjalla ljósmyndara virðist vera: Engin er mynd án brjósta. Þannig gætir Sveinbi þess rækilega að brjóst á mynd séu upplýst og í fókus. Sveinbi leikur sér annars með hin ýmsu stílbrigði og fókusleysið er eitt þeirra. Það sést iðulega á myndum af djammandi karlmönnum sem stöku sinnum sjást á Superman, myndir af þeim eru oft listilega vel hreyfðar, úr fókus eða vanlýstar.
Margur ljósmyndarinn leikur sér mikið með sjálfsmyndir en enginn eins og Sveinbi. Hann tekur fleiri sjálfsmyndir en Rebekka og Katrín.is. Til samans! Þannig sést best hve hæfileikar Sveinba liggja víða, ekki bara sómir hann sér vel fyrir aftan vélina heldur einnig sem fyrirsæta. Því fylgir líka mikill heiður að nást á mynd með kappanum. Þess vegna flykkjast ungar stúlkur í fang hans og villast jafnvel sumar upp í hann, allt í þeirri von að flassið skjóti af og þær festist á spjöld djammsögunnar á Superman.is. Góð hugmynd þangað til mánudaginn eftir djamm þegar mamma gamla sér myndir af afkvæminu í sleik við stjarfleitan uppvakning.
Enn á ég eftir að kynna til leiks athafnamanninn Sveinba. Hann á nefnilega fleira sameiginlegt með Jóni Ásgeiri en slæma hárdaga. Nei, Superman sjálfur hefur staðið fyrir allskyns djammkvöldum á skemmtistöðum bæjarins. Eitt sinn hélt hann meira að segja keppni þar sem markmiðið var að stúlkur heilluðu hann upp úr skónum. Í verðlaun fyrir þá heppnu var flug með herranum sjálfum til London. Keppnin fór þannig fram að Sveinbi sat á stól upp á sviði og ein af annarri gengu stúlkurnar fram með lítersflösku af vodka og reyndu sitt besta til að heilla rauðhærða þokkasveininn. Auðvitað enduðu þær meira og minna berrassaðar í kjöltunni á Supermanninum með smjörlíki og skósvertu á brjóstahaldaranum.
Einhver stúlknanna vann hug og hjarta Sveinba og þar með keppnina en eitthvað stóð víst á verðlaununum. Það skipti ekki öllu máli því myndirnar af viðburðinum urðu epískar, enduðu í DV og Sveinbi vann sér loksins inn langþráðan celeb status á Íslandi. Ekki bara var karlinn kominn í DV heldur líka á barnaland, það meira segja í eigin persónu þar sem hann svaraði fyrir sig með einhverskonar skrifmáli sem líktist íslensku - að einhverju leiti. Því miður er ekki hægt að finna innlegg kappans á barnalandi en hér má sjá dæmi um ritsnilld hans á Huga:
"Yo fólk dem herna ég skal seigja ykkur ég sveinbi hef farið í flest party þar sem óli geir kemur nálægt og það hefur alltaf verið stappað á ak og kef og reykjavik og vestmannaeyjum þannig að ég hef ekki seð nein party hjá honum sem floppa. Ég er búin að fara á öll partý hjá Techno.is frá 2006 og lang flest partýin þar hafa verið fullt hús hin verið rúmlega hálf og ég hef alltaf seð gríðalega stemningu. Ég hef farið á öll partý hjá Flex síðan 2006 og allt hefur verið geggjað nema örfá flex party hafa verið fáment en partyin verið flott. Og svo er verið að tala um ATHIGLI herna og hvað skiftir það ?"
Um síðust helgi sýndi Sveinbi enn eina hliðina á margbrotnum persónuleikanum. Barnalandskarlinn, viðskiptajöfurinn og ljósmyndarinn tók nefnilega erótískar myndir. Já þannig vildi til að par á Hótel Íslandi gat ekki haldið í sér og byrjaði að eðla sig uppi á sviði. Sveinbi var fyrstur á staðinn og documenteraði eins og Micheal Moore á sterum. Daginn eftir birti hann svo heiminum myndir sínar og fussaði yfir fólki sem benti á að þessi myndbirting væri ef til vill ekki við hæfi. Hann fékk sko leyfi hjá hinu dauðadrukkna pari á staðnum.
Að vísu eru myndirnar horfnar núna en það er örugglega bara út af bilun í vefnum en ekki grátbiðjandi unglingsstúlku með móral!Já, hann Sveinbi er nefnilega gull af mannshjarta samkvæmt vinkonu hans sem svaraði fyrir hann á barnalandi einhverntímann. Aldrei efast um manngæsku manna með smjörlíkisblandaða skósvertu í hárinu og auga fyrir brennivínslegnu lambakjöti.
Bloggar | Breytt 8.2.2008 kl. 10:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (210)